Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, apríl 2007

Fjölbreytilegt starf

Skrapp í gær að farða og stílisera fyrir forsíðu tímaritsins Fyrstu skrefin. Þetta er reyndar önnur forsíðan sem ég tek fyrir blaðið en ég sá um síðasta blað líka.  Þetta var skemmtileg myndataka og algjörir sprelligosar sem prýða forsíðuna að þessu sinni, kemur í ljós seinna.  Ég var einmitt að velta þessu fyrir mér í gær hvað starfið mitt er fjölbreytt og bíður upp á alls kyns möguleika.  Maður er alltaf að hitta nýtt fólk, lenda í ólíkum aðstæðum, farða ólíka karaktera og reyna á sig á svo ófyrirsjáanlegan hátt. Maður veit aldrei hvað getur komið upp á eða hvernig samvinnan gengur og maður þarf alltaf að vera tilbúinn að bjarga því sem bjarga þarf og redda öllu, að sjálfsögðu með bros á vör.  Förðunartaskan er líka stundum einna líkust First Aid kassa sem inniheldur allt frá A-Ö.  Jamm, þetta er bara gaman og auðvitað stundum krefjandi líka :) Það er ekki nóg að geta bara farðað, maður þarf að geta greitt hár og stíliserað en það finnst mér bara spennandi og gæti hugsað mér að taka einhvern tímann námskeið í því - bara svona upp á "fönnið".

Annars er bara allt fínt að frétta. Kem til með að taka um 8 vaktir í maí hjá Sjónvarpinu og verð að vinna um Hvítasunnuhelgina sem er bara ágætt þar sem við familían ætlum bara að vera heima og slaka á þá helgi. Get svo varla beðið eftir því að það fari að hlýna og daginn að lengja hér því það er fátt yndislegra en íslenskt sumar, göngutúrar í náttúrunni og bjartar nætur.

Góða helgi kæru vinir, njótið hennar vel með ykkar nánustu og munið að lifa lífinu lifandi með bros á vör :)

Túrelú, Anna Rún.


VATN

Staðreyndir um vatn

Mikið er spurt um hversu mikinn vökva æskilegt er að drekka á dag. Í fullorðnum mannslíkama eru um 40 - 50 lítrar af vatni, um 65% af heildinni.  Við venjulegar aðstæður tapast um það bil 2,5 lítrar af þessum vökva daglega, þar af um 1,5 lítrar í þvagi, 0,4 lítrar um lungu, 0,5 lítrar í svita og með hægðum.  Við hvers konar líkamlega áreynslu eykst vökvatap í svita verulega og þá einkum ef loftslag er hlýtt.  Við mikið erfiði geta þannig tapast allt að 2 lítrar á klukkustund og í maraþonhlaupi hefur mælst upp í 6 lítra vökvatap í svita.
Mikið vökvatap minnkar líkamleg afköst verulega.  Rannsóknir hafa sýnt að 2% vökvatap af þyngd þýðir 20 % minni afköst.  Verði vökvatapið 5 - 10 % af líkamsþyngd getur það valdið sólsting, krampa og jafnvel orðið lífshættulegt.  Því er mjög mikilvægt að íþróttafólk sem og aðrir fái nægan vökva og þá hefur sýnt sig að ekki nægir að treysta á þorstatilfinninguna. Það er því skynsamlegt að drekka vel fyrir hvers konar áreynslu og síðan á hálftíma eða klukkutíma fresti, jafnvel oftar ef heitt er og áreynslan mikil.  Gott er að drekka t.d. Powerade eða aðra íþróttadrykki ef vökvatapið er óvenju mikið því þá endurnýjast líka söltin sem hreinsast út með vökvatapinu.  

Ekki gleyma að börn þurfa líka að drekka nægan vökva og sérstaklega þau börn sem eru dugleg að leika sér eða stunda íþróttir.  Það er góð regla að gefa börnum einhverskonar þynntan ávaxtasafa í leikhléi í hópíþróttum. Það virkar jafnvel að verðlauna þau fyrir að vera dugleg í vatnsdrykkju, til að venja þau á góðan ávana. 

Meðal einstaklingur missir um 2-3 lítra á sólarhring af vökva, þannig að lágmarks vökvainntak er um 2-3 lítrar á dag. Vökvi kemur líka í gegnum fæðu þannig að um 1-2 lítrar á dag ættu að vera nóg fyrir meðal mann. En í miklu líkamlegu álagi er allt annað upp á teningnum eins og áður kom fram.


Markmiðasetning

Mikilvægi markmiða


    Aðalmálið með að setja sér markmið er að þau séu raunhæf, að þú getir náð þeim og að þau séu mælanleg, t.d. að lækka hjartsláttinn, minnka fituprósentuna, léttast um viss mörg kíló o.s.frv.
Við skiptum markmiðunum okkar í þrjá flokka: 
Skammtímamarkmið, en það eru frekar auðveld markmið sem koma okkur á sporið í átt að lokatakmarkinu. Skammtímamarkmiðin veita þér mikla gleði þegar þeim er náð og halda baráttuandanum við á leið þinni að stóra sigrinum. Reyndu að vera nokkuð nákvæm(ur) þegar þú setur þér skammtímamarkmiðin, hafðu þau það erfið að þú þarft að hafa fyrir þeim en ekki þannig að þú gefist upp á þeim. Mundu að þú þarft að sýna ákveðni og  viljastyrk, en ef þú gerir það færðu það þúsundfalt til baka. Skammtímamarkmið ættu að ná yfir u.þ.b. 4 – 6 vikur og geta t.d. verið að mæta 1 – 2 sinnum í ræktina, borða hollt alla vega einu sinni á dag eða neita sér um einhverja freistingu.
 
    Miðtímamarkmiðin þín eru framlenging á skammtímamarkmiðunum og eiga að ná yfir 4 – 12 mánuði. Þar herðirðu aðeins á skemmri markmiðum þínum og getur farið enn lengra með þau. Á miðtímanum ertu farinn að sjá virkileg áhrif frá æfingum og breyttu mataræðinu, þú finnur mun á fötum, hvíldarpúlsinn er lægri, þú ert léttari og fituprósenta þín hefur lækkað. Þú finnur jafnvel fyrir skapferlisbreytingum eins og aukinni einbeitingu og þolinmæði og meira sjálfstrausti. Miðtímamarkmiðin þurfa að vera meira krefjandi en skammtímamarkmiðin en þó aldrei svo að þér finnist allt vera kvöð á þér, fyrst og fremst á þetta að vera gaman og þú átt að hlakka til næstu æfingar en ekki kvíða fyrir henni.
     Langtímamarkmiðin eru í raun fínpússuð miðtímamarkmið. Þau eiga að ná yfir lágmark eitt ár og helst að endast alla ævi. Langtímamarkmiðin eiga að vera þau að þú sért sáttur við eigin líkama og heilsu og búir í líkama sem veitir þér sjálfstraust og gleði. Hollt mataræði og regluleg hreyfing eiga að vera orðin hluti af þínu nýja lífi og þú hefur nú þá þekkingu á þínum eigin líkama að þú veist hversu miklar æfingar og hversu strangt mataræði hann þarf til að virka eins og honum er ætlað.
Þó að allt þetta hljómi vel og virki auðvelt er langt í frá að svo sé. Það munu koma upp hundruð augnablika þar sem þér mun finnast þetta mjög erfitt og það munu koma upp vandamál sem þér finnast jafnvel óyfirstíganleg. Þú munt freistast til að sleppa æfingu og þú munt freistast til að fá þér nammi þegar þú átt að fá þér epliþ Það mikilvægasta er að þú gerir þér grein fyrir þessu öllu frá upphafi og ætlir ekki að fara af stað og aldrei falla af baki.
    Málið er ofur einfalt, Það falla nær allir einhverntímann, fyrstu vikuna, fyrsta daginn eða jafnvel fyrsta klukkutímann. Það er enginn fullkominn. Að þú sért að gera betur í dag en í gær og betur þessa vikuna en þá seinustu er það sem skiptir máli, aldrei gleyma því.
    Það eru nokkur atriði sem er nauðsynlegt að hafa í huga áður en þú sest niður og byrjar að setja þér markmið. Þetta eru atriði sem við þurfum flest að glíma við og geta hjálpað okkur að vera raunsærri og nákvæmari varðandi markmið okkar.

Hvað mun hvetja mig til að stunda líkamsrækt?
 
    Hvatning er ekki bara spurning um viljastyrk, því viljastyrkur er skammtímaáætlun.  (,,ég ætla ekki að reykja þessa sígarettu”…. ,,Ég ætla ekki að borða þetta súkkulaði”… ,,Ég ætla í göngutúr núna”)  Hvatning er langtímaaðferð til að öðlast eitthvað sem hugurinn girnist.  Viljastyrknum getum við kveikt og slökkt á eins og ljósrofa en raunveruleg og sönn hvatning er eilífur logi sem aldrei deyr.
Áður en þú byrjar á ferð þinni að heilsusamlegra líferni þá verður þú fyrst að ákveða hver þín persónulega hvatning er. 
    Það þarf kjark til að líta í eigin barm og spyrja sjálfa sig hver getur verið sú sterka hvatning sem hjálpað þér að gera erfiðar breytingar til að öðlast betra líf.  Þú munt sennilega upplifa einhverja vanlíðan, því það eru jú oftast veikleikar okkar sem við horfumst í augu við en þú verður að taka á þessu með jákvæðu hugarfari.  Þessi innri hvatning mun koma djúpt innan frá undirmeðvitund þinni og styðja þig í gegnum erfiðu stundirnar.

Ekki nota yfirborðskenndar ástæður.

     Eins og ,,ég vil léttast” eða ,,ég vil vera unglegri”.  Með þvi að leita dýpra áttarðu þig e.t.v á að svarið er frekar að þú vilt ekki fá hjartasjúkdóm um aldur fram, ekki sykursýki, of háan blóðþrysting eða æðasjúkdóma. Kannski er þetta spurning um sjálfstraust eða vanlíðan í þínum eigin líkama.
Hver svo sem ástæðan er verður hún að vekja svo sterkar tilfinningar hjá þér að allt daglegt amstur og óvæntar uppákomur koma ekki í veg fyrir áætlanir þínar um bætta heilsu.

Til að ná toppárangri.

     Er nauðsynlegt að setja sér raunhæf markmið, bæði til langs tíma og síðan styttri markmiðin sem koma þér að lokum að langtímamarkmiði  þínu. Þessi markmið skaltu skrifa niður á markmiðaformið hérna á eftir en passaðu þig á því að vera með markmið sem standast og er mögulegt að ná.
Ekki ætla þér að missa 20 kíló á tveimur mánuðum eða hætta að borða nammi yfir höfuð. Þetta eru óraunhæf markmið sem munu að öllum líkindum enda með að þú verður mjög vonsvikinn og enn verr staddur líkamlega og andlega en áður en þú hófst átakið.

Þú verður að horfast í augu við sannleikann.
 
    Vænlegt er taka á þeim utanaðkomandi áhrifum sem geta komið í veg fyrir að þú getir bætt heilsu þína. Þau geta verið börnin/eiginmaðurinn(konan)eða vinirnir sem koma í veg fyrir að þú komist á æfingu, borða nammi eða sætabrauð fyrir framan þig og láta þig finna fyrir sektarkennd þegar þú getur ekki varið tíma með þeim o.s.frv.
Já,  þú verður að vera vera örlítið sjálfselsk(ur), en til lengri tíma litið munu allir hagnast á þessari sjálfselsku því það er engum til gagns ef heilsu þinni hrakar stöðugt og lífsgæði þín minnka? Að láta eftir sér einstaka sinnum að borða fituríkan mat eða taka 20 mínútna æfingu í stað 30 mínútna er í góðu lagi, en þú verður að setja þér reglur og forgangsröð sem skilar þér í átt að markmiði þínu með sem minnstum skakkaföllum.
    Í raun mælum við með því að fólk taki sér einstaka ,,nammidag” á milli því lífið er til þess að njóta þess og við vorum ekki sett á þessa jörð til að lifa eingöngu á rískökum og gulrótum.

Ert þú ert virkilega tilbúin? Já, værirðu nokkuð að lesa þetta annars.

    Rétti tíminn taka skrefið í átt að heilbrigðari líferni er NÚNA. Að bregðast strax við og gera eitthvað í þínum málum er það sem þú átt að gera, frestaðu því ekki að láta þér líða betur en þér hefur nokkurn tíma líðið áður. Það gerist ekkert að sjálfum sér, gríptu tækifærið þegar þú finnur að þú ert virkilega tilbúin því það gæti verið að á morgun finnist þér það of seint og byrjir að bíða eftir næsta ,,fullkomna augnablikinu” til að gera eitthvað. Byrjaðu núna!

thjalfun.is


Henda, henda, henda...

Já ég verð nú bara að taka undir með henni Önnu Rún minni og óska ykkur gleðilegs sumars!  Ohh, það er bara notarleg tilfinning að sjá sólina hækka á lofti!

Ég er búin að vera að pakka búslóðinni minni alla helgina, tæma háaloftið, alla skápa, henda, henda henda og fara með hluta af búslóðinni austur í bústað!  Mikið er merkilegt hvað maður hefur safnað miklu drasli í gegnum árin.  Sumum hlutum fylgja bara oft ákveðnar minningar og ég tala nú ekki um öll gömlu gellufötin.  Jesús!  Annars fáum við íbúðina líklega afhenta í dag og þá er bara að gera hana kósý og hefjast handa í Leirvogstungunni.

Fyrsta vaktin á rúv gekk bara vonum framar!  Frábær andi á þessum gamalgróna vinnustað!  Það verður bara frábært fyrir okkur samlokurnar að vera þarna í sumar!!!

Annars er ég bara syngjandi sæl enda ekkert annað í boði! 

Later......

 

Kolla


Gleðilegt sumar!

Gleðilegt sumar kæru vinir og takk fyrir veturinn!

Sumardagurinn fyrsti lofaði góðu um framhaldið í veðrinu eða eins og sonur minn sagði, það er bara allt úti í sól mamma :) En í dag er þó kaldara og maður þarf að halda aftur af sér að taka ekki fram sandalana og skokka berfættur í þeim út, já og í kvartbuxunum líka.  Jamm, sólarhugurinn og sumarfílingurinn hjá manni er aðeins á undan áætlun og ef kvef og aðrar pestir eiga ekki að taka yfirhöndina að þá þarf maður að sættast við að klæðast vetrarkápunni ögn lengur.

Annars er allt fínt að frétta. Það er margt búið að gerast í vinnumálum hjá okkur Kollu síðustu daga en í vikunni fengum við báðar vinnu á sama staðnum :) Jamm, við samlokurnar nældum okkur í vinnu sem sminkur hjá Sjónvarpinu og erum hæstánægðar með það. Kolla byrjaði í gær og stóð sig svakalega vel en hún var ein á vakt og kláraði þetta með stæl.  Ég fer á fyrstu vaktina mína 11. maí og hlakka þvílíkt til.  Þetta er spennandi fyrir okkur og bara gaman enda allir víst svo elskulegir á þessum vinnustað og andrúmsloftið gott.

Svo bókuðum við hjónin utanlandsferð núna í vikunni fyrir familíuna í sumar en þá er stefnan tekin út í sólina í tvær vikur, vá ég er farin að hlakka þvílíkt til þó það séu nú enn nokkrir mánuðir í þetta :)

Helgin framundan er bara róleg samkvæmt planinu en ætli maður fari þó ekki eitthvað í ræktina og svo út úr bænum og geri eitthvað skemmtilegt með fólkinu sínu.

Hafið það gott og góða helgi.

Túrelú.......

Anna Rún.


Yoko, páskarnir og flutningar!

yokoyokoyoko

Ég fékk það ótrúlega skemmtilega verkefni í vikunni að farða enga aðra en sjálfa Yoko Ono.

Yoko var stödd á landinu í örfá daga að þessu sinni og ég skaust til hennar upp á Nordica hotel og farðaði hana.  Yoko er orðin 74 ára gömul sem er hreint ótrúlegt að trúa.  Hún er létt á fæti, stórglæsileg og gefur frá sér mikla útgeislun.  Mér fannst frábært að fá að hitta þessa stórkostlegu konu enda á hún mikla sögu að baki.

 

Fleira skemmtilegt er að gerast í vinnumálum hjá mér en að því síðar!

Nú er mín byrjuð að pakka búslóðinni í kassa, við lönduðum leiguíbúð núna í kvöld.  Fengum huggulega íbúð í 104.  Það verður bara skemmtileg tilbreyting að prófa að búa þar í smá tíma.  Þetta hefði ekki mikið seinna mátt vera enda eigum við að afhenda húsið þann 1. maí.  Svo er bara að ráðast í að byggja framtíðarhúsið í Leirvogstungunni.  Þetta verður smá púl en vonandi allt þess virði þegar þetta er yfirstaðið! 

Páskarnir voru yndislegir fyrir utan veikindi Sigga litla sem náði sér í upp og niður pest miðvikudaginn fyrir páska og var hálf druslulegur alla páskana greyið!  Við vorum í sveitasælunni allann tímann og tókum á móti mikið af góðum gestum! Christina og Hlín vinkonur byrjuðu á að kíkja til okkar með börnin og voru hjá okkur í sólahring. Það var svo svakalega notarlegt hjá okkur.  Við gerðum nánast ekkert annað en að spalla og borða góðan mat jú og drekka nokkra kokteila.  Hoppuðum aðeins á trampolíninu, skelltum okkur í pottinn með góða tónlist, maska og já fleira sem að verður ekki uppgefið hér!  Gerðar voru andlitsæfingar og grettur til að koma í veg fyrir hrukkur Pinch og svo náðum við einum góðum göngutúr.  Sem sagt endurnærðarar Smile  Þar á eftir komu Ingi, Eyja og börn, þau voru hjá okkur eina nótt.  Svo tóku mamma og pabbi við og voru í tvær nætur.  Alli bróðir og Sandra kíktu í Páskamat, Inga, Óli og börn kíktu í kaffi. Gummi og Berglind og litli kútur líka og svo fékk ég eina sex snjósleðagarpa i kaffi eftir ævintýri sín sem sagt nóg að gera.  Pabbi fór á kostum í eldhúsinu.  Hreindýr, rjúpur og með því.  Hann kann sitt fag karlinn!!!  Að sjálfsögðu þurftir maður svo að borða yfir sig af páskaeggjum!  Eins og maður hafi aldrei komist í súkkulaði áður!  Ég hef ekki snert gotterí síðan ég kom heim,  ég fékk alveg meira en nóg! Shocking 

Við mæðginin verðum ein heima alla helgina þar sem húsbóndinn er útá landi.  Við ætlum að hafa það hrikalega kósý, kannski skreppa í húsdýragarðinn og á kaffihús á milli þess sem að við höldum áfram að pakka og gera hreint!

Hafið þið það sem allra best um helgina.

Kveðja

Kolla Tounge

 

 


Lifum í dag!

Ég rakst á þessa fallegu lesningu og langaði að deila henni með ykkur í tilefni páskanna, vonandi eruð þið öll búin að hafa það gott kæru vinir!

Kv, Kolla.

Við sannfærum okkur sjálf að lífið verði betra eftir að við giftum okkur og eignumst börn. Síðan pirrum við okkur á því að börnin séu ekki orðin nógu gömul og við erum sannfærð um að við verðum betur stödd þegar að því kemur. Næst erum við örg yfir því að eiga unglinga. Við munum svo sannarlega verða hamingjusöm þegar því skeiði er lokið. Við teljum sjálfum okkur trú um að líf okkar verði fullkomið þegar maki okkar tekur til í sínum málum, þegar við fáum betri bíl, þegar við fáum tækifæri á að fara í gott frí eða þegar við setjumst í helgan stein.

Sannleikurinn er sá að það er ekki og verður aldrei betri tími til að vera hamingjusamur en einmitt núna. Ef ekki núna, hvenær þá. Lífið verður alltaf fullt af áskorununm og viðfangsefnum. Það er best að viðurkenna þetta fyrir sjálfum okkur og ákveða að vera hamingjusöm engu að síður, á hverjum degi. Vinur minn sagði eitt sinn. Í langan tíma hafði mér virst sem líf mitt væri í þann mund að hefjast- hið raunverulega líf. En alltaf var einhver hindrun í veginum, eitthvað sem hann þurfti að eignast fyrst, einhver óútkljáð mál, mig vantaði tíma til að sinna hlutunum og alltaf voru einhverjar ógreiddar skuldir. Þá gæti ég loks byrjað að lifa lífinu. Að lokum rann upp fyrir mér ljós, þessar “hindranir” eru líf mitt. Þetta sjónarhorn hjálpar okkur að sjá það að það er engin leið til að hamingjunni. Hamnigjan er leiðin. Svo að varðveittu og lærðu að meta hvert augnablik sem þú átt. Lærðu að meta það meira vegna þess að þú deildir því með einhverjum sérstökum, nógu sérstökum til að eyða tíma þínum með...og mundu að tíminn bíður ekki eftir neinum. Hættu að bíða, bíða eftir að þú klárir þetta eða hitt, eftir að þú missir nokkur kíló, eftir að þú náir á þig nokkrum kílóum, hættu að bíða eftir að þú eignist börn og barnabörn og eftir að börnin flytji að heiman, eftir að þú byrjir að vinna, að þú hættir að vinna, að þú giftist, að þú skiljir, eftir laugardagskvöldinu eða sunnudagsmorgninum, hættu að bíða eftir nýja bílnum, eftir að þú sért búin að borga upp bílinn eða húsið, eftir vorinu, sumrinu, haustinu, vetrinum. Hættu að bíða eftir að þú fáir þér drykk og svo að bíða eftir að það renni af þér. Hættu að bíða eftir að þú deyir.... Hættu að bíða eftir að ákveða að, Það er enginn tími betri en einmitt núna, að vera hamingjusamur... Hamingjan er ekki áfangastaður, heldur ferðalag. Í dag er tími til að: vinna eins og þú þurfir ekki á peningum að halda, elska eins og enginn hafi nokkurn tíma sært þig, dansa eins og enginn sé að horfa.....


Hræðsluáróðursþreyta

Mikið er sorglegt að setjast niður þessa dagana og lesa innlendu fréttirnar.  Fréttir af líkamsárásum á hverju götuhorni hvort sem er um hábjartan dag eða miðja nótt. Saklausir unglingar utan að landi bíða eftir strætó í Breiðholtinu og lenda í því að ráðist er á þá að tilefnislausu, fólskuleg og tilefnislaus árás að sögn fréttamiðlanna en fjölmörg vitni urðu að árásinni og aðhöfðust ekkert, já EKKERT. Aldraður maður gengur eftir Miklabrautinni, eflaust í sínum daglega göngutúr, og maður í annarlegu ástandi stekkur á hann og veitir honum hættulega áverka.  Maður stunginn með hnífi í heimahúsi af "vini" sínum og þar fram eftir götunum.  Kynferðisglæpamenn, eiturlyfjasalar, ökuníðingar, barnaníðingar.....hvar endar þessi vitleysa á þessu litla "áður friðsæla" landi okkar.  Auðvitað hafa alltaf verið til glæpamenn og villingar en guð minn góður, maður er orðinn svo móðursjúkur að maður þorir varla að hleypa börnunum sínum út í garð án eftirlits.  ,,Ekki tala við ókunnuga ástin mín, ekki fara lengra en að skólalóðinni, ekki fara yfir þessa götu....." Jamm, þó maður sé ekki nema rétt um þrítugt að þá blöskrar manni sú þróun sem orðið hefur á þessum árum frá því að maður var sjálfur lítið saklaust barn sem gat um frjálst höfuð strokið fyrir áhyggjum foreldra sinna sem þó ávallt vöktuðu mann og fylgdust vel með manni.  En í dag er ekki hjá því komist að staðan er önnur....þjóðfélagið verður spilltara og villtara með hverri kynslóð og þessi þróun er ekkert annað en SORGLEG!  Þarf maður að flytja á afskekktan stað upp í sveit til þess að vera öruggur um börnin sín og sjálfan sig? Ég er orðinn svo meðvituð um þetta að ég er hætt að fara ein út að hjóla eða skokka þegar það er myrkur, ég einfaldlega tek ekki sénsinn.  Maður læsir bílnum að kvöldlagi á meðan maður rúntar niður Laugaveginn því ekki vill maður að einhver rífi upp hurðina og setjist inn.  Ég fékk allt í einu nóg af þessum fréttum og má segja að maður sé kominn með svona nokkurs konar hræðsluáróðursþreytu, maður verður örmagna að hugsa um allan óþverrann þarna úti.

En endum þetta á jákvæðu nótunum og gleðilega páska allir og njótið þess að eiga gott frí með ykkar nánustu í vonandi hlýju og góðu útivistarveðri. Munið bara að vera ekki ein á ferli á afskekktum stöðum og farið ávallt varlega :)

Knús og kvitterí....

Anna Rún.


Desperate houswife!

 

Í fyrsta skipti í minni ferðasögu langaði mig alls ekki heim!  Það var svo ljúft að komast út í hitann, borða góðan mat, vera í góðum félagsskap, og  hreyfa sig  svolítið í góða veðrinu.   Ég hef alltaf jafn gaman að því að ferðast!  Mér finnst svo frábært að koma á nýja staði og kynnast nýju og góðu fólki.  Fyrir utan það þá hef ég bara almennan áhuga á fólki.  Hafið þið ekki staðið ykkur af því að horfa bara og spá í öðru fólki?  Hvernig skyldi líf þeirra nú vera? Ég get alveg týnt mér í svona hugleiðingum stundum!  Annars var ferðin alveg frábær í alla staði.  Við vorum í stórglæsilegu húsi á stað sem heitir Kissemi á Orlando. Gatan sem að við bjuggum í minnti óneitanlega á Desperate houswife götuna.  Allt tipp  topp, grasið slegið á hverjum degi og til að toppa þetta mættu ungir, myndarlegir drengir til að þvo sundlaugina okkar síðasta daginn.  Þetta vakti mikla lukku hjá okkur skvísunum.  Börnin nutu sín vel í hitanum og voru í lauginni allan daginn, húsfreyjurnar lágu á sundlaugarbakkanum og sötruðu góða kokteila sem að Guðrún kokteilmeistari bar fram og pabbarnir gauruðust eitthvað á meðan.  Það var vissulega eitt og annað brallað,  við fórum í frábæran sundlaugargarð með gengið sem heitir Blissard Beach.  Þar var frábært svæði fyrir börnin þar sem að var búið að setja allar rennibrautirna í míni útgáfur fyrir litla fólkið.  Siggi Viðar var ekkert smá ánægður með þetta!  Einnig fórum við á skemmtilegan stað sem heitit Old town, og svo fórum við í Down town disney síðasta kvöldið. 

En heim er ég komin og raunveruleikinn tekinn við!  Við reyndum að rétta sólahringinn eins fljótt og hægt var enda nóg að gera.

Í gær voru vinir okkar með meiru þau Heiða og Nonni að ganga í það heilaga.  Heiða mætti til mín um 14:30 ásamt mömmu sinni, Bryndísi sinni og Herði Mána litla prins.  Ég farðaði Heiðu og mömmu hennar, svo klæddum við okkur allar heima, skáluðum í bleiku freyðivíni og svo kom bílstjórinn og sótti drottinguna.  Athöfnin var gullfalleg og svo tók skemmtilega veisla við!  Til lukku enn og aftur elskurnar!

Við fjölskyldan höfum nóg fyrir stafni næstu daga, við þurfum að finna okkur íbúð, losa húsið fyrir 1. maí og koma húsinu okkar í byggingu.  Svo þarf ég að skella mér í smá lærdómstörn og klára þetta fyrsta ár mitt!!!

 

Elsku Anna Rún mín, er farin að sakna þín.  Vonandi átturðu góðan afmælisdag!

Kveðja Kolla.

 


Höfundur

Anna Rún & Kolbrún Pálína
Anna Rún & Kolbrún Pálína
Vinkonudúettinn bloggar um fegurð hversdagleikans

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband