Leita í fréttum mbl.is

Bloggfærslur mánaðarins, maí 2007

Lifað og leikið í núinu

Nú held ég að sumarið sé komið enda ekki annað í boði þar sem júnímánuður er rétt handan við hornið.  Með hækkandi sól fylgir alltaf smá tiltekt og erum við hjónin búin að vera ansi iðin síðustu daga við að breyta og betrumbæta. Einnig voru garðhúsgögnin vakin af vetrardvalanum og höfum við notið þess að sitja hérna fyrir utan í góða veðrinu enda algjör pottur hér fyrir framan í skjóli.  Annars er ég búin að vera að vinna mikið síðustu daga, vann frá fimmtudegi til mánudags og var mestmegnis ein á þessum vöktum enda sleppur það þar sem Kastljós er ekki um helgar.  Það er alveg merkilegt hvað allir eru elskulegir þarna hjá Sjónvarpinu og förðunarherbergið er ef svo má segja "heiti potturinn" þar sem skemmtilegt spjall fer fram ýmist fyrir eða eftir útsendingar. 

Annars vil ég taka undir með henni Kollu minni og hvetja ykkur lesendur til að kíkja inn á bloggsíðuna hennar Ástu Lovísu.  Þessi stelpa er þvílík hetja og voru það forréttindi að fá að kynnast henni þegar við unnum saman forsíðuna á Ísafold.  Hún er svo einstök og dugnaður hennar og elja er öðrum til fyrirmyndar.  Við þurfum öll að læra að slaka á annað slagið og þakka fyrir hvern líðandi dag og læra svolítið að lifa í núinu en ekki alltaf vera að bíða eftir næsta verkefni til að leysa eða kvarta undan smámunum.  Knúsum börnin okkar og tjáum þeim væntumþykju okkar, gerum hluti með þeim sem við höfðum gaman að sem krakkar og leyfum þeim að finna að þrátt fyrir hraðann í þjóðfélaginu að þá höfum við tíma fyrir þau því ekkert er mikilvægara :)

Kvitterí.....

Anna Rún.


Ásta Lovísa

Stundum er nauðsynlegt að minna sig hvað við getum verið þakklát fyrir það eitt að vera hér og vera heilbrigð!

Í þessum töluðu orðum berst  Ásta Lovísa fyrir lífi sínu sem fyrr á árinu var valin íslendingur ársins af tímaritinu Ísafold. 

Kíkið endilega inná bloggsíðu hennar http://www.123.is/crazyfroggy/default.aspx?page=blog

Verkefni, Ásta Lovísa

 

Sendum henni hlýja strauma.

 

Kolla.


Málglaður sundfélagi!

Góðan dag... Grin

Ég skellti mér í sund í góða veðrinu í gær sem er svo sem ekki frásögufærandi.  Kom mér vel fyrir í heita pottinum , teygði andlitið í átt að sólu og reyndi að slaka vel á!  Nema hvað að það sest svona ofboðslega málglaður maður mér við hlið!  Hann byrjaði svona aðeins að ræða veðrið sem er svona klassísk leið til að byrja samræður við ókunnuga!  Nei nei... gæinn masaði og masaði og masaði um lífið og tilveruna, sjómennskuna, kjaradeilur, pólítík, og ég veit ekki hvað og hvað!   Ég er nú mjög kurteis að eðlisfari en á endanum var ég farin að láta eins og ég heyrði ekki í honum, færði mig svo aðeins lengra frá honum .  Hann náði ekki skilaboðunum aumingja maðurinn þannig að ég neyddist til að druslast upp úr pottinum og skutlaði mér út í  kalda laugina og synti nokkrar ferðir! 

Eftir þessa skemmtilegu sundferð átti ég góða vakt upp á rúv með henni Sollu skvísu sem er með NYX förðunarvörunar sem eru heitustu vörurnar í dag að mínum mati!  Ég og Lilja vinkona skelltum okkur svo í smá kokteil þar sem að var verið að kynna nyjan ilminn frá Ninu Richi.  Þar var að sjáfsögðu meistari Heiðar Jónsson að kynna eins og honum einum er lagið.  Hann kann sitt fag karlinn!

Þar sem að við vorum komnar með útivistarleyfi á annað borð skelltum við okkur á 101 og fengum okkur einn drykk! Mjög notó!

Best að púla aðeins í ræktinni áður en ég skutlast upp í snyrtiakademíu!

Adios Cool Kolla P


Vetur, sumar, vor og haust!

Hvar annarstaðar en á Íslandi kemur hagglél, rigning og fínasta sumarveður allt í sömu vikunni, stundum sama daginn og jafnvel sömu klst!  Það getur verið stórkostleg upplifun að búa hérna stundum!

Ég var búin að skrifa þessa fínu færslu í gær þegar tölvar fraus og ég fékk mig bara ekki til að byrja upp á nýtt!

Ég er bara nokkuð hress enda ekki ástæða til annars.

Við Glymrurnar áttum frábærann hitting síðasta föstudagskvöld.  Silla babe bauð heim og fór á kostum í eldhúsinu.  Við hinar sátum og nutum, enduðuðm svo í góðu kaffi og súkkó!  Við konurnar kunnum þetta!  Það var tiger þema með meiru þetta kvöldið, það  var reyndar mismikil þáttkaka,  nefnum engin nöfn!!!  Ragnheiður okkar kom, sá og sigraði!  Hún var rosaleg!!!   Þú ert tigerinn!!!  Við tókum svo smá hring í miðbænum, hristum mjaðmirnar aðeins við góða tónlist á Torvaldsen og þá var kvöldið fullkomnað!

Anna Rún mín!  Ég treysti því að látir heyra í þér þegar þú ert búin að jafna þig eftir örlög helgarinnar!  Held ég fari að skrifa bók um þig, titillinn verður einfaldlega:  ÓHEPPIN ÉG!!!!!

Miss you og láttu þér batna.

 Love, K

 


Árinu eldri!

Ég er á lífi kæru vinir og vel það!  

Það er yndislegt veður, ég var að koma úr göngutúr úr laugardalnum og er að losna við kvefið sem hefur verið að hrjá mig svo lengi.  Jú svo er ég orðin árinu eldri en þegar ég bloggaði síðast!  Mér er sagt að þetta verði betra með hverju árinu svo að ég reyni bara að taka hækkandi aldri og auknum þroska fagnandi, en ekki hvað!!!    

Ég veit nú  varla hvar á að byrja, það er svo langt síðan ég lét í mér heyra!  Í fyrsta lagi er stóru flutningunum ógurlegu lokið!  Hélt að þetta ætlaði engann endi að taka en allt hófst þetta á endanum.  Við erum formlega flutt í 104 og það fer bara alveg rosalega vel um okkur í litlu sætu kjallara íbúðinni. Siggi Viðar er búinn að eignast fullt af nýjum vinum í hverfinu og kemur útkeyrður inn á hverju kvöldi eftir að hafa verið að bralla og leika sér með öllum krökkunum.

Ég lauk fyrsta skólaárinum mínu sömu helgi og við afhentum húsið og gekk allt vel bara.....  Býð reyndar enn eftir einkunnum.

Af vinnumálum:  Það er búið að vera nóg að gera, nokkrar vaktir uppá rúv yfirstaðnar, sé strax hvað þetta á eftir að vera frábær reynsla í bankann að vera þarna. Maður þarf að vinna mjög hratt og vel þannig að það gefst enginn tími til að hika eða vera óöruggur!  Skaust einnig í skemmtilegt verkefni í vikunni þar sem ég aðstoðaði hana Elínu Reynis örlítið.  Elín er að farða fyrir mjög spennandi kvikmynd og ég fékk aðeins að kíkja við og hjálpa til. 

Mikil eftirspurn er eftir þjálfun þessa dagana.  Alltaf pínu fyndið hvernig íslendingar hugsa.  Við erum svo gráðug í árangur og það á sem styðstum tíma og höldum stundum að allt gerist fyrirhafnarlaust!  Hef fengið símtöl þar sem að ég er spurð beint út hvort að hægt sé að losna við 10 kg á tveimur mánuðum og fl.  Allir að hugsa um að líta vel út á sundlaugarbakkanum!!!

Er einmitt að fara að þjálfa núna...... held áfram að babbla á morgun og aldrei að vita nema að maður fari að henda inn nokkrum myndum og standa sig svolítið betur!

Adios!

 

 


Verkefnaflóð

Það er búið að vera nóg að gera í þessari viku og alltaf gaman að fara í ný og ný verkefni.  Ég skrapp t.d. á mánudaginn upp á Birting og farðaði Reyni Trausta fyrir sjónvarpsauglýsingu sem verið var að taka fyrir Mannlíf.  Reynir er einhvern veginn fjölmiðla- og tímaritakóngur Íslands að mínu mati.  Það verður að segjast að það er alveg ótrúlegt að fylgjast með þessum manni og skoða og lesa eftir hann viðtöl.  Hann fær viðmælandann algjörlega á sitt band og þefar uppi ótrúlegustu frásagnir af tærri snilld, það eru fáir sem leika þetta eftir honum - alla vega hér á Íslandi.  Enda er Mannlíf eina fréttaritið hér á Fróni og hann má auðvitað vera stoltur af því!

Í dag fór ég svo og hélt fyrirlestur fyrir um 60 manns hjá Iceland Express en þó í tveimur hollum sem betur fer.  Fyrri hópurinn var fyrir hádegi og sá seinni eftir hádegi.  Í hópunum voru verðandi flugfreyjur og flugþjónar hjá félaginu og kom það í minn verkahring að kenna þeim viðeigandi "flugförðun".  Ég fór einnig í gegnum almennt hreinlæti og hélt sýnikennslu auk þess sem ég tók hverja og eina í stólinn og gaf þeim góð ráð.  Þetta var bara gaman og flottir hópar en stelpurnar, reyndar voru 4 strákar líka, voru duglegar að spyrja og taka þátt.  Tíminn flaug áfram og það eina sem ég fann fyrir var að röddin var að gefa sig enda var ég búin að tala stanslaust í um 5 tíma og rúmlega það :)  Ég uppskar alla vega klapp og þakklæti eftir daginn og fólk gekk út með bros á vör, og þannig var tilgangi mínum náð.

Annars er allt fínt að frétta, hlakka til að byrja í næstu viku á nýja vinnustaðnum og breyta aðeins til :)

Þar til síðar kæru vinir,

Anna Rún.


Höfundur

Anna Rún & Kolbrún Pálína
Anna Rún & Kolbrún Pálína
Vinkonudúettinn bloggar um fegurð hversdagleikans

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband