4.4.2007 | 10:57
Hræðsluáróðursþreyta
Mikið er sorglegt að setjast niður þessa dagana og lesa innlendu fréttirnar. Fréttir af líkamsárásum á hverju götuhorni hvort sem er um hábjartan dag eða miðja nótt. Saklausir unglingar utan að landi bíða eftir strætó í Breiðholtinu og lenda í því að ráðist er á þá að tilefnislausu, fólskuleg og tilefnislaus árás að sögn fréttamiðlanna en fjölmörg vitni urðu að árásinni og aðhöfðust ekkert, já EKKERT. Aldraður maður gengur eftir Miklabrautinni, eflaust í sínum daglega göngutúr, og maður í annarlegu ástandi stekkur á hann og veitir honum hættulega áverka. Maður stunginn með hnífi í heimahúsi af "vini" sínum og þar fram eftir götunum. Kynferðisglæpamenn, eiturlyfjasalar, ökuníðingar, barnaníðingar.....hvar endar þessi vitleysa á þessu litla "áður friðsæla" landi okkar. Auðvitað hafa alltaf verið til glæpamenn og villingar en guð minn góður, maður er orðinn svo móðursjúkur að maður þorir varla að hleypa börnunum sínum út í garð án eftirlits. ,,Ekki tala við ókunnuga ástin mín, ekki fara lengra en að skólalóðinni, ekki fara yfir þessa götu....." Jamm, þó maður sé ekki nema rétt um þrítugt að þá blöskrar manni sú þróun sem orðið hefur á þessum árum frá því að maður var sjálfur lítið saklaust barn sem gat um frjálst höfuð strokið fyrir áhyggjum foreldra sinna sem þó ávallt vöktuðu mann og fylgdust vel með manni. En í dag er ekki hjá því komist að staðan er önnur....þjóðfélagið verður spilltara og villtara með hverri kynslóð og þessi þróun er ekkert annað en SORGLEG! Þarf maður að flytja á afskekktan stað upp í sveit til þess að vera öruggur um börnin sín og sjálfan sig? Ég er orðinn svo meðvituð um þetta að ég er hætt að fara ein út að hjóla eða skokka þegar það er myrkur, ég einfaldlega tek ekki sénsinn. Maður læsir bílnum að kvöldlagi á meðan maður rúntar niður Laugaveginn því ekki vill maður að einhver rífi upp hurðina og setjist inn. Ég fékk allt í einu nóg af þessum fréttum og má segja að maður sé kominn með svona nokkurs konar hræðsluáróðursþreytu, maður verður örmagna að hugsa um allan óþverrann þarna úti.
En endum þetta á jákvæðu nótunum og gleðilega páska allir og njótið þess að eiga gott frí með ykkar nánustu í vonandi hlýju og góðu útivistarveðri. Munið bara að vera ekki ein á ferli á afskekktum stöðum og farið ávallt varlega :)
Knús og kvitterí....
Anna Rún.
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.