30.3.2007 | 09:00
Ég á afmæli í dag :)
Jæja, þá er maður kominn inn í nýtt afmælisár. Vaknaði í morgun kl. 7 við fagran söng barnanna minna sem sungu hátt og snjallt að mamma væri orðin 31. ÁRA, eins og þau sungu það þessar elskur. Elska þessa afmælismorgna og þætti ekki leiðinlegt að vakna svona á hverjum degi. Eftir kossana og knúsin frá börnunum og manninum fékk ég svo fallega skreyttan pakka. Sonur minn var búinn að perla Leu prinsessu sem svo fagurlega hékk í slaufunni og í pakkanum var gullfallegt fiðrildagullhálsmen, sem ég var búin að mæna á í búðinni í nokkra mánuði, þeir hafa ótrúlegt minni þessar menn, en Maggi skráði þessa löngun mína í hálsmenið greinilega í langtímaminnið sitt og vá hvað ég var hamingjusöm. Svo var ég búin að fá miða á tónleikana með Josh Groban og í pakkanum voru líka 2 geisladiskar með kappanum. Oh, þetta var bara æðislegt. Er svo búin að fá þennan flotta Kitchen Aid blandara frá tengdaforeldrum mínum en hann var alveg kærkominn undir booztið mitt á morgnana. Svo fór ég með mömmu í gær og valdi mér útivistarjakka, hvítan, mjög flottan svo það má með sanni segja að maður sé að fá draumagjafirnar. Takk fyrir mig allir saman.
Í kvöld á svo að hafa bara smá afmælisteiti yfir X-Factornum en það nánasta ætlar að kíkja á mig og stefni ég á að baka mínar margrómuðu speltpizzur og hafa ávaxtabombu í eftirrétt ásamt skúffuköku fyrir krakkana. Á morgun erum við familían að fara í fermingu og svo förum við hjónin beint í þrítugsafmæli um kvöldið þar sem diskóþemað ræður ríkjum, maður á bara eftir að finna sér viðeigandi búning. Svo tekur við önnur ferming á sunnudaginn svo það má með sanni segja að maður hafi nóg að gera þessa helgina.
Hef þetta ekki lengra í bili. Velkomin heim Kolla mín :)
Knús og kvitterí og góða helgi......
Anna Rún
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
28.3.2007 | 10:41
Miðar á Josh Groban
Jamm, þvílíkt stress. Var sest niður við tölvuna rétt fyrir kl. 10 í morgun þar sem ég kappkostaði við að reyna að fá miða fyrir mig og manninn minn á Josh Groban tónleikana en forsalan hófst í morgun. Við Maggi sátum við sitthvora tölvuna á sitthvorum staðnum og reyndum að fá miða hlið við hlið en sætin sem við fengum alltaf uppgefin voru á kolómögulegum stað. Svo allt í einu pompuðu upp miðar á 10. bekk og ég var ekki lengi að stökkva á þá á meðan Maggi var hinum megin á símalínunni að reyna að athuga hvort eitthvað betri birtist. En um leið og ég var búin að ganga frá greiðslunni var orðið uppselt á tónleikana í forsölunni, JÁ Á INNAN VIÐ MÍNÚTU SELDUST 700 MIÐAR. Ji, hvað ég var glöð að hafa náð að klófesta þessa miða en þetta var það eina sem ég vildi fá frá manninum mínum í afmælisgjöf núna á föstudaginn. Tónleikarnir eru svo 16. maí og ég er strax farin að hlakka til enda þessi söngvari í miklu uppáhaldi.
Annars er allt fínt að frétta, fór að vinna á sunnudagsmorgun kl. 7, svona frekar í fyrri kantinum, en fermingarnar eru byrjaðar og því nóg að gera í sminkinu. Reyndar hef ég þurft að neita nokkrum sem vilja fá förðun um næstu helgi en hún er svo bókuð hjá mér að ég get bara ekki tekið farðanir þessa helgi, sorry elskurnar mínar!!!!!!
Vona að þú eigir góða ferð heim Kolla mín og hlakka auðvitað þvílíkt til að sjá þig.
Kvitterí.......
Anna Rún í hæstu hæðum eftir miðakaupin :)
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
24.3.2007 | 00:39
Sólin er yndisleg!
Elsku Anna Rún og þið hin!
Það er vægast sagt búið að vera nóg að gera í þessum mánuði!
Yndislega vel heppnuð sumarbústaða ferð með glymrunum er yfirstaðin. Einnig ævintýraferð til kaupmannahafnar í síðustu viku. Sýndi þar á geggjaðri sýningu sem að Yasmine stjórnaði eins og henni einnig er lagið. Oasis var að opna glæsilega verslun á Srikinu og af því tilefni fór 12 manna vel valinn hópur út og setti upp glæsilega sýningu. Elín Reynirs sá um förðun, Selma skvísa um hár, það voru 4 geggjaðir dansarar og svo vorum við 4 að sýna föt. Vorið tók á móti okkur og það er óhætt að segja að maður hafi fengið algjöra vítamín sprautu við að kíkja til Köben.
Núna er ég hinsvegar stödd í Florida og ákvað að senda smá kveðju! Hér er vægast sagt yndislegt að vera. Veðrið er búið að leika við okkur og börnin eru í algjöru hamingjukasti. Þau henda sér útí laugina að morgni, koma upp úr öðru hvoru til að nærast og hendast útí aftur! Við erum hérna saman komnar þrjár fjölskyldur í geggjuðu húsi. Hér er disney stíllinn ríkjandi og brjálað þema í hverju herbergi börnunum til mikillar gleði! Það er aðeins búið að kíkja í búðir þó ekki mikið enda er engöngu verið að slaka á, borða góðan mat og svo er nú reyndar búið að fara út að hlaupa tvisvar!!! Maður þykist vera í góðu formi, svo þegar maður kemur í svona hita er maður alveg ómugulegur! Það er samt alveg yndislegt að geta hlaupið í svona góðu veðri! Jæja, við fullorðna fólkið ætlum að skella okkur á einhvern braselískan veitingarstað í kvöld!
Bið innilega að heilsa, sendi HLÝJAR kveðjur til ykkar allra!
Kolla.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 00:41 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.3.2007 | 12:39
Letiveður og öðruvísi verkefni.
Maður er nú hálf latur í þessu veðri, það verður að segjast og mér verður hugsað til hennar Kollu sem er að spóka sig núna úti á Flórída með familíunni, vona að þau hafi það súper gott :) Annars er það að frétta að nú er fjölskyldan á mínum bæ að rétta úr sér eftir veikindi og ég dreif mig, enn hálf slöpp þó, í verkefni á þriðjudagsmorgunn þar sem ég kenndi nokkrum konum á mömmumorgni í Seljakirkju að farða sig. Þarna voru samankomnar svona 10 skvísur og var þetta hinn fínasti hópur kvenna á öllum aldri. Ég sýndi þeim bara létta og auðvelda dagförðun, talaði um almennt hreinlæti og húðhreinsun og gaf þeim svo fullt af leyndum ,,bjútí- tipsum" sem gera gæfumuninn þegar maður er flýta sér út á morgnana með börnin á handleggnum :) Þær fengu svo að skoða vörurnar mínar eða dótakassann minn eins og þær kölluðu hann og skrifuðu hjá sér nöfnin á flottum litum og meikum sem þær ætluðu svo að nálgast sjálfar. Þetta var bara mjög skemmtilegt og öðruvísi og ég væri alveg til í að fara í svona verkefni aftur, maður fer kannski bara að gera bisness úr þessu - enda nóg af mömmumorgnum út um allt :)
Knús á línuna,
Anna Rún.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 12:42 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
16.3.2007 | 17:00
Leyndar áfengisauglýsingar
Jæja, enn ein helgin framundan og sú síðasta var alveg hreint frábær. Við Kolla fórum með sminkuhópnum í sumarhúsið hennar Kollu og áttum þar æðislegan tíma. Vorum mættar snemma, tókum klukkutímagöngu á föstudeginum og skelltum okkur svo í pottinn með hvítvín í annarri. Elduðum svo æðislegan mat þar sem Þórdís fór á kostum og sátum við til borðs í um 4 tíma þar sem margt var skrafað og hlegið þar til magakramparnir voru orðnir óbærilegir. Dekruðum svo við okkur með alls kyns möskum og kremum sem við höfðum fengið en við vorum með fulla poka af alls kyns prufum af sjampói, möskum, ilmum o.fl. Á laugardeginum var svo vaknað í bítið þar sem útbúinn var hollur morgunverður, fyrir utan lummurnar hennar Þórdísar með sírópinu, og svo var aftur farið í hraðgöngu í ca. klukkutíma. Við héldum svo í bæinn um tvöleytið en Kolla var þá búin að endurheimta herrana sína og var áfram yfir helgina. En þetta var geggjuð ferð og verður héðan af árleg hjá Glymrunum. Vonandi skellum við inn myndum fljótlega!
En ég verð nú að víkja að frétt sem ég sá í Fréttablaðinu í gær þar sem góðvinur okkar Kollu, Reynir Traustason, er að fá áminningu fyrir leyndar áfengisauglýsingar í tímaritum sínum, Ísafold og Mannlífi. Ég á einmitt heilsíðu í febrúarhefti Ísafoldar um kokkteila og góðar uppskriftir af þeim og styð ég Reyni í því að þetta sé nú komið út í öfgar og eru tímarit hans ekki þau einu sem koma inn á vínumfjöllun. Eru ekki öll tímarit með umfjöllun um vín, hvað passi með hinum og þessum mat og víninu gefnar stjörnur af fagaðilum. Einnig eru seldar í bókabúðum bækur með kokkteiluppskriftum og er þá vefurinn vinbud.is ekki leynd áfengisauglýsing, maður spyr sig! Reynir nær að svara vel fyrir sig með því að ef að hann fái á sig kæru að þá kæri hann einhvern annan í leiðinni. Já, það borgar sig ekki að abbast upp á Reyni, hann veit hvað hann syngur :)
En til ykkar allra, eigiði góða helgi og Kolla mín vonandi áttirðu góða ferð til Köben í vikunni, hlakka til að heyra frá þér.
Kvitteríí.......
Anna Rún.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.3.2007 | 10:02
Menningarsjokk og Glymruhittingur í sumó
Hæ, kæru vinir........
Átti svoleiðis æðislega ferð til Amsterdam um síðustu helgi. Visakortið fékk að kenna á því en þó helst í H&M þar sem ég var valin viðskiptamaður mánaðarins held ég eftir að hafa tæmt barnafatadeildina :) Þvílíkt verðlag og það fær mann til þess að hugsa að barnafatnaður á Íslandi ætti að vera án virðisauka en það munar einmitt því í verði á milli landa. Við nutum hverrar mínútu úti, Maggi og samstarfsfélagar voru á ráðstefnu og við konurnar (makarnir) nýttum tímann vel, versluðum, fengum okkur gott að borða - smakkaði m.a. eitt besta kjúklingasalat sem ég hef fengið - og yfir höfuð er maturinn í Hollandi mjög góður. Einnig skelltum við okkur í siglingu að kvöldlagi um síkin og það ætlaði allt um koll að keyra í bátnum þegar siglt var í gegnum rauða hverfið. Þar stóðu vændiskonurnar í sínum bleikupplýstu gluggum og dilluðu sér á nærbrókunum einum saman. Það er nú hægt að líkja þessari upplifun við hálfgert menningarsjokk því þetta eru ungar stúlkur sem varla eru orðnar fullþroska og svo horfir maður á sveitta miðaldra karla ganga út frá þeim og renna upp buxnaklaufinni á meðan stúlkurnar spreyja loftið með einhverjum ilm í brúsa svona rétt eins og til að eyða ummerkjunum eftir þennan viðskiptavin og gera sig tilbúnar fyrir þann næsta.............frekar skelfilegt!!!!!!!!!!
En margt er hægt að skoða en við höfðum nú ekki svo langan tíma. Mig langaði að skoða hús Önnu Frank og fara á Van Gogh og Rembrandt söfnin en tíminn var naumur og biðraðirnar svo langar að ekki tók því. Við fórum þó fjögur saman, við Maggi, Halla og Hlífar, á Madame Tusseau vaxmyndasafnið og eins á n.k. Dýflissu- og Draugasafn þar sem við Halla bókstaflega dóum næstum því úr hræðslu. Túrinn um safnið tekur um 80 mínútur þar sem lifandi leikarar í miður fríðum gervum hræða líftóruna úr safngestunum á meðan farið er í gegnum pyntingarsögu mannkynsins niðri í dimmri dýflissu. Jamm, ég var alla vega guðs lifandi fegin þegar ég gekk út úr safninu heil á húfi :)
Vikan hefur svo farið í enn ein veikindin á heimilinu þar sem strákurinn minn náði sér í streptókokka og heiftarlega hálsbólgu og svo í dag fór hann fyrst á leikskólann en þá tók stelpan við og kastaði svoleiðis upp lungu og lifur í nótt svo hún er heima í dag í kósíheitum með mömmu sinni. Ég er því þvílíkt farin að hlakka til að kíkja upp í bústað til hennar elsku Kollu minnar á morgun þar sem við Glymrurnar, sminkuhópurinn hressi, ætlum að fara í dekurferð og gista yfir eina nótt. Þetta verður bara gaman og við stefnum á að leggja snemma af stað í fyrramálið. Við Kolla eigum svo pottþétt eftir að segja frá þessu eftir helgi og skella inn nokkrum myndum.
En þið hin, eigiði góða helgi með hækkandi sól og minnkandi frosti.
Knús og kvitterí..........
Anna Rún.
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
4.3.2007 | 13:21
Góð vika!
Hola hola...
Það er gaman að segja frá því að þetta var viðburðarrík vika hjá okkur Önnu Rún!
Blöðin komu út hvert á fætur öðru og við áttum þar nokkur verk, bæði skrif og farðanir!
Mig langar að byrja á að segja ykkur frá frábæru innliti sem að ég kíkti í fyrir Hús og híbýli.
Ég heimsótti æskuvin minn hann Henrý Þór ! Henrý er bakarameistari með meiru og ótrúlega skemmtilegur strákur! Endilega kíkið á það!
Later... Kolla
Hið langþráða eldhúsblað Húsa og híbýla er loksins komið út!
Tímaritið Hús og híbýli er að venju stórglæsilegt og að þessu sinni fjöllum við um allt sem tengist eldhúsum, að sjálfsögðu eru svo föstu þættirnir á sínum stað, svo sem Spurt og svarað, Smekkfólkið og Uppáhaldshúsið. Blaðið að þessu sinni er óvenju stórt eða 132 síður.
Allan mánuðinn hefur ritstjórn Hús og híbýla verið á faraldsfæti að skoða eldhús landsmanna. Í eldhúsblaðinu er meðal annars hægt að sjá inn í um tuttugu íslensk eldhús, fræðast um erlenda strauma, kynna sér ofurgræjur og sjá eldhúsinnréttingatillögur eftir sömu teikningum frá nokkrum íslenskum söluaðilum. Þannig fá lesendur innsýn í 30 eldhús. Við skoðum það sem við viljum kalla Hið nýja eldhús
... Hið nýja eldhús er flennistórt með öllum nýjasta tækjabúnaði sem völ er á en einnig með veglegu borðstofuborði svo að allir komist vel fyrir. Hið nýja eldhús er nefnilega orðið á stærð við stofuna og fylgir henni fast á eftir í samkepnninni um vinsælasta samveruherbergið í húsinu. Í eldhúsinu viljum við nú koma saman og laga mat á meðan við ræðum við gestina og sinnum börnunum við heimanámið. Eldhúsið hefur breyst úr því að vera einkaherbergi húsfreyjunnar í fjölnotaherbergi allrar fjölskyldunnar þar sem við reynum að nýta þær fáu stundir sem við hödum til samveru við fjölskyldu okkar, á tímum endalausrar vinnu og áhugamála... Njótið samverunnar!
Þá er einnig kíkt í nokkur innlit, meðal annars til bakarans Henrýs Þórs Reynissonar sem býr í skemmtilegri piparsveinaíbúð í miðbænum. Hann hefur komið víða við, m.a. bakað fyrir Beckham-hjónin og vann nýlega samkeppni um Köku ársins og er að flytja til Flórída til að stofna bakarí.
Sushi hefur farið eins og eldur í sinu um heiminn síðustu árin og er Ísland þar engin undantekning. Fylgihlutir þessarar japönsku matarmenningar eru ekki síður fyrir augað en sushi-ið sjálft og er hægt að finna glæsilegan sushi-borðbúnað í búðum bæjarins.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 14:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
27.2.2007 | 09:37
Skapandi skrif
Já, ný vinnuvika byrjuð en stutt í þetta sinn, er að halda í helgarferð til Amsterdam á fimmtudaginn. Get varla beðið og ég ætla að njóta hverrar mínútu, hef ekki komið þarna áður en mér skilst að gott sé að versla þarna og ýmislegt er hægt að skoða!
Vinnuvikan byrjaði í gær þegar ég fór að farða fyrir forsíðu Mannlífs og maðurinn á forsíðunni var alveg hreint frábær. Ég get að sjálfsögðu ekki gefið upp að svo stöddu hver hann er en við áttum gott spjall og ég komst að því að hann er m.a. barnabókarithöfundur og er með spennandi námskeið um skapandi skrif. Ég fór öll á ið og spurði hann spjörunum úr enda vita þeir sem þekkja mig að barnabókaskrif eru eitt af aðaláhugamálum mínum. Hann gaf mér fullt af góðum ráðum og ljósmyndarinn gat ekki annað en hlegið að okkur því hann mátti ekkert vera að því að líta í myndavélina svo upptekin vorum við í samræðunum. Nú langar mig virkilega að kíkja á þetta námskeið hjá honum og kynna mér það til hins ítrasta. Já, það er alltaf gaman að hitta fólk sem er fullt af fróðleik og visku en hún svoleiðis lak af honum :) Hlakka til að lesa viðtalið við hann í næsta blaði en svona fólk getur gefið manni mikinn innblástur:)
Svo er árshátíðatörnin að byrja en síminn hefur varla stoppað og ég hef verið á fullu að vísa á aðrar sminkur til að leysa mig af næstu tvær helgar. Svo ef einhver er á lausu að þá má alveg láta mig vita :)
En alla vega, hafið það sem allra best kæru lesendur........
Kvitterí.........................
Anna Rún.
Lífstíll | Breytt s.d. kl. 09:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
26.2.2007 | 18:27
Hækkandi sól...
Halló allir saman á þessum gullfallega degi...
Þá er enn ein helgin liðin og vinnuvikan skollin á. Átti ljúfa helgi í sveitinni, tókum heljarinnar tiltekt á lóðinni í góða veðrinu á laugardaginn og fengum góða gesti á sunnudaginn!
Var mætt upp í förðunarskóla á hádegi í dag til þess að fara yfir tæplega 20 vinnumöppur og ganga frá einkunum! Sat einmitt yfir bóklegu förðunarprófi á föstudaginn síðasliðinn. Alltaf nóg að gera upp í skóla. Svo skemmir nú ekki fyrir hvað þær eru alltaf hressar þær elsku Lára mín og Inga Kolbrún.
Við Anna Rún rúlluðum í létta heimsókn upp á Birting í síðustu viku, áttum þar létt spjall við Reynir Trausta og Ingibjörgu. Þar var allt á fullu enda starfa nú öll blöðin undir sama hatti!
Jæja, bið að heilsa í bili...
Vonandi gekk vel með verkefnið í dag Anna Rún mín!
Kær kveðja, Kolla kvebbalingur!
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
22.2.2007 | 10:51
Geir Ólafs gleðipinni!
Góðan dag kæru vinir!
Hvernig hafið þið það í dag? Ég er hress að vanda enda ekki ástæða til annars!
Átti skemmtilegan og skrautlegan dag í gær þar sem að ég skaust í skemmtilegt verkefni fyrir Vikuna. Verkefnið fór fram á hárgreiðslustofunni Mólekúl á Vegamótastíg. Módelið var enginn annar er Geir Ólafs sjálfur! Það er bara hressandi að hitta Geir, hann mætti á svæðið eins og kóngurinn sjálfur og dreifði sinni einstöku orku og reitti af sér brandarana. Gunnar ljósmyndari tók myndirnar, það er alltaf gott að vinna með Gunna. Við höfum unnið saman af og til síðan 2001 og ekkert nema gott um það að segja.
Við Anna Rún vorum í miklu stuði í gær, styrktum Ogvodafone vel með löngum símtölum!!! Við skvísurnar erum einmitt að vinna í því að nálgast allar myndirnar okkar sem hafa birtst í Ísafold og fl tímaritum upp á síðkastið. Þurfum að fara að skella þeim inn á bloggið!
Þá er það lærdómurinn...
Eigið góðan dag, Kolla
Lífstíll | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)